Karlmenni
Augun opnast og þú veist ekki hvar þú ert,
eftir stutta stund sérðu að þú ert stödd inni í tjaldi,
og það sem meira er; þú hefur verið gerð að uppblásinni
dúkku vina þinna.

Gott að eiga vini sem er hægt að treysta
og nenna að leika við þig. Þú hefur ekki leikið
þér með dúkkur síðan þú varst lítil svo þetta ætti að
geta orðið skemmtilegt.

Þú hefur þörf fyrir að öskra og þú öskrar af lífs og sálarkröftum,
gefur þig alla í þetta eina öskur sem á að veita svo mikla útrás.
En það heyrist ekkert í þér, ekki boffs, ekki múkk.
Hvað veldur? Er verið að þrengja að hálsi þínum? Það getur ekki verið að vinir þínir geri þér þann grikk að meiða þig á þennan hátt.

Þér léttir þegar þú sérð að það er ekki rétt. Vinur þinn hefur hendur sínar á brjóstkassa þínum og eru þær allar á iði. Gott að eiga vini sem eru slík karlmenni að bjarga konu í neyð. Þú hlýtur að hafa dáið og þinn kæri vinur er að veita þér hjartahnoð.
Verkur þinn í hjartastað er þvílíkur og er það af völdum hnoðsins.
Mikill léttir að fá skýringu á verknum, stingnum í hjartanu.

Vinir þínir standa upp, girða sig og vilja fara út í fjörið. Þér er boðið með, manngæska þeirra er þvílík. Færð meira að segja þrjá kossa á kinnina.

Þú átt góða vini, mjög góða. Það eiga ekki allir vini sem nenna að fara í dúkkuleik við fullorðna konu og leyfa þar með barninu í sér að njóta sín. Sömu vinir bjarga lífi þínu, þú hefðir eflaust dáið drottni þínu ef þeir hefðu ekki gripið inn í, hnoðað þig og blásið í þig líf. Og til að sýna kærleikann í verki færða létta kossa á kinn þína.

Þetta eru menn sem þora að vera þeir sjálfir.
Þetta eru menn sem láta þér líða vel.
Þetta eru sönn karlmenni.
Er það ekki?
 
Ypsilon
1977 - ...


Ljóð eftir Ypsilon

Ástsjúka öspin
Hæg breytileg norðanátt (gengur á með skúrum)
Karlmenni
Andnauð
Snaran
Lítil stúlka