Mansöngur úr Víglundarrímum
Hver vill ræna frá
heiðri sól um vorsins daga,
sem lundi grænum logar á,
í loftið vill hans greinar draga?...

Hver vill banna fjalli frá
fljóti rás til sjávar hvetja?
Veg það fann, sem manngi má
móti neinar skorður setja.

Hver má banna að blómstur tvenn
bindi saman heldar rætur
og vaxi þannig saman senn
sem náttúran vera lætur?

Hver vill binda huga manns
að hvergi megi þönkum fleyta?
Þar sem yndi eirir hans,
ætíð mun hann þangað leita.

Hver má skilja flóð við flóð,
farveg einn ef hitta taman,
og skilja vilja blóð við blóð,
sem blæðir tveimur æðum saman.

Engir menn því orkað fá
og aldrei heldur munu kunna
að halda kvenna hjörtum frá
honum, sem þær vilja unna.

Tryggðin há er höfuðdyggð,
helzt ef margar þrautir reynir;
hún er á því bjargi byggð,
sem buga ekki stormar neinir....




 
Sigurður Breiðfjörð
1798 - 1846


Ljóð eftir Sigurð Breiðfjörð

Mansöngur úr Víglundarrímum
Leggðu þig á láðið